Jæja svo jæja, þá byrjaði þessi fallegi sumarmánuður með spennandi hlutum. Við brunuðum austur á föstudegi á hádegi þann 30. Júní og vorum lent á Höfn í eftirmiðdaginn. Komum til okkar dásamlegra vinahjóna Þórdísi og Gísla sem taka ávallt á móti okkur eins og höfðingjum. Áttum með þeim dásamlegt kvöld þar sem við borðuðum á veitingastaðnum sem Gísli rekur Birki Restaurant og spjölluðum svo eitthvað fram á kvöld. Við þurftum ekki að vakna eins snemma og venjulega og gátum því rölt á hótelið sem Þórdís rekur Berjaya Höfn og fengum okkur hótel morgunverð, alveg geggjað veður og fallegt. Svo kl.09:00 kom bílstjórinn að ná í okkur og keyrði okkur upp í Lónsöræfin okkar fallegu.
Við vorum ein fram á miðjan dag en þá mætti fyrsti hópurinn og að sjálfsögðu var Guðmundur Landvörður mættur líka. Það var gott að koma okkur fyrir í rólegheitunum því nú vorum við komin með okkar eigið litla hús, hvorki meira en minna! Við þurftum að byrja á því að tæma húsið af drasli, þrífa það og byggja síðan rúmið svo við gætum sofið þarna. Þetta var bara ferlega skemmtilegt allt saman, og við sváfum þarna fyrstu nóttina okkar. Svo hélt verkefnið áfram með því að búa til fataskáp, finna borð og stóla, geggjað alveg.
Hver dagur í Lónsöræfum er einstakur, maður vaknar og hugsar ef enginn hópur er að koma “hvert ættum við að ganga í dag” sem er svo dásamlegt. Svo er að hugsa hvað maður ætlar að borða í morgunmat, hádegismat og kvöldmat. Reyndar er allt frekar skipulagt í matarpælingunum því við þurfum að skipuleggja okkur vel með hvað við tökum með okkur í þetta ævintýri sem þetta er hvert einasta sumar. Sumarið 2023 er fjórða sumarið okkar í þessari dýrð en þriðja árið sem skálaverðir. Þetta verður partur af okkar lífi held ég, það þarf eitthvað mikið að gerast svo við hættum þessu. Við endurræsum okkur alveg frá toppi til táar.
Einn daginn tókum við göngu á gamlar slóðir og kíktum á einn af gistiskálunum sem við vorum í fyrstu göngunni okkar. Helst langaði mig til að baða mig í vatninu sem er beint fyrir neðan skálann, sem ég og gerði. Þetta var alveg ískjökulkalt vatn og mjög grunnt svo þetta var heldur flókið en ég lét mig hafa það og leið ekkert smá vel á eftir í þvílíku dýrðarlogni og hita.
Á níunda degi og þá komin 9. Júlí var brottför sem er alltaf fáránlegt skrítið og kemur þessi tilfinning um að “mig langar EKKI” til að fara út í hin tryllta heim sem bíður okkar. Það er eins og einhver veggur sé þarna og ég get ekki útskýrt nógu vel hversu í raun klikkað þetta er. Við höfum ekki aðgang að internetinu, ekkert útvarp og ekkert rafmagn en þó neyðarsíma. Svo við erum gædd algjörum forrétinda aðstæðum, jebbs það finnst mér. Þegar einn hópurinn kom þá sögðu þau okkur að það væri kannski að koma eldgos, það er svo geggjað eitthvað. Veðurfréttir eru í raun litlar nema þá með göngufólkinu sem kemur til okkar, svo spyr það okkur hvernig veðrið verði á þau sína göngudaga, þá hlæjum við mikið.
Við vorum búin að hugsa um að halda áfram lengra austur eftir þetta ævintýri og fara kannski á Víknaslóðir og ganga um það svæði sem er á "to do" listanum okkar. En þegar maður hefur verið að heiman í svona aðstæðum þá langar manni heim, að þvo föt og sofa í sínu rúmi svo við gerðum það. Lentum í þvílíkum dýrðardögum í Reykjavíkinni í sól og algjörum útlandar feeling! Já það má svo ekki gleyma því að á brottfarardeginum var brúðkaupsdagurinn okkar, þá 12 ára hjónaband og 29 ára sambúð. Við fengum okkur að borða og hittum Gísla á Höfn en brunuðum svo í bústaðinn þeirra í Lóninu sem er algjörð fegurðarveröld, tókum rómantíska kvöldgöngu í þvílíkum hita.
Svo var í raun ákveðið að bruna beint til Reykjavíkur daginn eftir sem við gerðum og sáum alls ekki eftir því. Vikan sem tók á móti okkur var lítil vinna þar sem við ætluðum að vera í fríi en fékk tvö markþjálfasamtöl óvænt, nokkra fundi og svo smá dekur (sjósund með kakó). Ég ELSKA svona viku!
Miður mánuður liðin, vá hvað tíminn er fljótur að líða! Helgin sem kom var líka dásamleg þar sem EKKERT plan var. Gulli skaust vestur eftir vinnu fimmtudag og kom svo heim á laugardegi. Við byrjuðum daginn á hjólatúr í Kópavoginn að horfa á litlu frænku spila fótbolta á Símamótinu. Hjóluðum svo ennþá lengra og inn í Hafnafjörð, kíktum á bæjarhátíðina. Svo ætluðum við að hjóla heim en ákváðum að hjóla bara niður í bæ. En þá fékk hjólið hjá okkur báðum í raun nóg, fyrst mitt en það var sátt með loft í dekkið en Gulla hjól bara vildi ekki meira og urðum við því að fara heim. En það var svo geggjað veður að við vildum ekki fara inn. Þá fórum við bara með strætó niðrí bæ að chilla sem var geggjað, alltaf gaman að kíkja aðeins á miðbæjarlífið.
Svo kom ný vika 17-21 júlí sem var virkilega ALLSKONAR! Mánudagurinn var algjör skipulagsdagur alveg meiriháttar geggjaður ég hreinlega ELSKA að fá svona skipulagsdaga.
Á þriðjudeginum fórum við með elsku kisuna okkar Princess til dýralæknis sem er ekki frásögufærandi nema hún varð veik í raun 5 dögum eftir að við komum þaðan, hefur ekki verið jafn veik frá því við fengum hana, já ferlega skrítið því við vildum bara fara með hana í “check” því við höfum ekki gert það og fengum hana árið 2017!
Miðvikudagurinn voru samtöl frá kl.9-18 sem jimindureini var svo hrikalega gott að fá á miðju sumri. Tók svo bara eitt á fimmtudagsmorgunn og svo kom alveg hrikalega gott frí eða já næstum því. Það var nefnilega STÓR helgi framundan. Ég skipulagði mikið á fimmtudag og svo byrjaði föstudagurinn með að sjálfsögðu okkar tabata morgni eins og síðustu ár kl.06:00, svo fór ég að vinna í Kombucha Iceland verksmiðjunni og frá hádegi fór allur fókus í laugardagsveisluna sem framundan var laugardaginn 22. Júlí.
Ég fékk lyklana af Guðmundarlundi og gat því farið að loknum vinnudegi hjá Gulla að undirbúa. Það var svo gott því við gerðum allt sem við gátum klárt og því laugardagurinn í algjöru chilli sem er svo gott.
22. Júlí rann upp, ekki bara stór dagur hjá okkur því elsku bróðir minn á líka afmæli. Við áttum góðan morgunn og brunch í faðmi fjölskyldu. Svo gátum við bara tekið öllu með ró og næði þangað til við vorum mætt í salinn til að fínpússa allt. Svo komu gestirnir um sex leitið, þá fyrri hópurinn því þetta var tvískipt hjá drengnum. Þetta var bæði útskriftaveisla og 20 ára afmæli hjá honum og bauð hann fjölskyldunni fyrst og svo vinum. Alveg þræl vel heppnaður dagur í alla staði. Það er eitt af ástríðum mínum að skipuleggja veislur!
Alvaran tók svo ekkert við eftir þessa stórkostlegu helgi eða bara að mjög litlu leiti. Eitt markþjálfasamtal eldsnemma á mánudagsmorgunn og svo chill með fjölskyldunni. Geggjað veður svo þetta er þvílíkur bónus. Svo þessi eiginlega lokavika einkenndis af mikilli keppni, litlu frænkur mínar að keppa á ReyCup og sonurinn á Meistamóti í frjálsum. Mikil samvera með fjölskyldu, stutt ferð upp á land, sjósund á Akrenesi , Úlfarsfell og svoleiðis dagar. Alveg dásamlegt.
Þennan fallega lokadag Júlí mánaðar nýti ég til skipulagningar eins og svo oft áður. Þessi mánuður mun einkennast af ferðalögum sem ég hlakka MIKIÐ til. Já þegar maður er frjáls eins og fuglinn og stjórnar sér sjálfur þá eru sumrin svona. Ekki það að það kemur akkúrat ekkert í kassann á meðan. Sem þýðir að maður þarf að skipuleggja sig ansi vel.
Við Barbie segjum "Over & Out"!
Bókun á tíma hér.
Velkomin í Mentor Markþjálfun.
Kynningartíma hér.
Sjálfstyrking hér.
Fyrirtækjaþjónusta hér.
Comments