Elsku elsku Júní - hvar er sólbaðið okkar?
Fyrsti dagur Júní mánaðar er einn sá stærsti í lífi mínu og okkar eiginmannsins auðvitað. Því þá kom kraftaverkið okkar í heiminn og í ár varð hann tvítugur!! Hvert flaug tíminn eiginlega? Þessum degi verður ávallt fagnað hvar og hvenær sem er, stóri dagurinn okkar. Við áttum yndislegan dag og kvöld þar sem fjölskyldan mín og ein af mínum bestu vinkonum fögnuðu með okkur. Afhverja ein vinkona, jú hún Karolina mín frá Svíþjóð var í heimsókn hjá okkur og fagnaði því með okkur, enda bjó hún hjá okkur. Grillaðar pizzur og eintóm hamingja allan tímann. Hvernig upplifir þú tímann, flýgur hann eða er hann endalaust lengi að líða? Hvað segir þetta okkur? Erum við að muna að njóta líðandi stunda? Sjálf reyni ég og vanda mig við það en ég upplifi lífið svo mikinn leik og það er svo dásamlegt að vera hér ég þessari jörðu og lifa, ég lifi til fulls!
Fyrsta helgi Júní mánaðar var alveg hreint dásamleg með allskonar partý fögnuði og veðrið bara alveg ágætt en það er eitthvað sem við íslendingar tölum mjög mikið um. Hvað finnst þér, tölum við mikið um veður? Og hvað er það eiginlega, er það vegna þess að það sé sjaldan gott eða afhverju gerum við þetta? Við í Reykjavík áttum ekki góðan mánuð framundan EN……!
Fyrsta vikan eða önnur er líklega réttara að segja var með allskonar skemmtilegheitum með fullt af markþjálfun, online webinars (já já starfrænum fyrirlestrum) og skólaslitum í Nú Framsýnmenntun þar sem ég er að þjálfa unglingana. Alls ekkert of bókuð en samt alveg nóg. Ég var líka með hugan við það að “óvissuferðin” var í vændum og ég vissi ekki neitt, ferðin sem eiginmaðurinn var búin að segja mér að taka frá þessa viku. Ein gjöfin af mörgum útaf af hálfrar aldar afmæli ársins. Ég var þó með grunsemdir að við værum að fara norður á Akureyri, veit ekki afhverju en það var innsæið mitt sem sagði það. Ég vissi að það yrði ekki útlönd því eiginmaðurinn var að undirbúa þetta alla vikua og svo sá ég hvernig hann pakkaði niður og gerði klár. En þetta var magnaður föstudagur eða brottfarardagurinn þar sem kvöldið áður gaf hann mér þessi skilaboð: Afmælisgjöf 5 af…..Óvissuferð - Gisting í sólríkum sumarbústað - Þema ferðar xxxxx (bara fyrir mig að vita, leyndó) - Pakkist niður eftir þema. Svo á leiðinni var hann með svo geggjað dæmi, hann keyrði út af veginum í Hörgársdal þar sem lítill hrörlegur rafmagnskofi var. Þar fór hann út úr bílnum og náði í litla freyðivínsflösku og glas, rétti mér svo bók sem stóð á “Gönguferðir í Glerárdal”, þetta var hann búin að skipuleggja allt saman. Svo var brunað á Akureyri upp í Hlíðarfjall þar í Hálöndin í geggjað glænýtt hús með öllum þægindum. Hver dagur varð heitari og meiri ævintýr,i góður matur og gleði. Ég held það verði erfitt að toppa svona frí. Það fór upp í 27 gráður og við náðum að brennast sem var auðvitað ekki sniðugt. Þessa viku náði ég samt að taka 2-3 rafræn námskeið og tvo fundi upp á fjalli, allt er hægt með tækninni.
Brottför föstudaginn 16. Júní frá Akureyri og mánuðurinn hálfanaður, en þá var svo heitt að við vorum að bráðna, þvílíkt og annað eins. En við vorum búin að ákveða að stoppa á Fellsenda í miðdölum, æskuslóðum eiginmannsins hjá tengdó. Þar var fínt veður en ekki í líkingu við Akureyri. Við áttum yndislega kvöldstund með heimsókn í þrjá kirkjugarða með blóm og heimsókn til elsku Ingu ömmu í Búðardal (ekki mín amma heldur eiginmannsins) og kvöldkaffi á Kvennabrekku - gat ekki hafað verið betra og fallegra kvöld í sveitinni. Svo tók ég næsta morgunn á sjálfum þjóðhátíðardeginum okkar smá flipp, fór út að hlaupa og dansaði ein með sjálfri mér niður á eyrinni, ég elska að leika mér. En hvað með þig, hvað gerir þú til að lyfta upp gleðinni? Það er alltaf stutt í mína. Við brunuðum svo í bæinn en ekkert sérstakt plan sem þó endaði með flottu matarboði fyrir foreldra minna og vinkonu partý stuði í Reykjavík downtown, sem já er alltaf mikið flipp en skemmtilegt. Ég enda oft í allskonar ævintýrum því ég hitti svo skrautlegt fólk, kannski bara í svipaðri orku og ég?
Well þá er farið að síga á seinni hluta mánaðarins sem hófst alveg hreint með geggjað skemmtilegri viku með hellings af vinnu. Ekki alltaf sem ég fæ laun yfir sumartímann en það er svo dásamlegt þegar það gerist. Miðvikudagurinn var auðvitað eins og alltaf í Heilsuklasanum en alla hina dagana var ég með vinnustofur fyrir eitt fyrirtæki sem er að fara uppfæra eða hreinlega búa til nýja menningu, geggjað verkefni sem ég er að ELSKA í tætlur, þetta hefur verið draumurinn minn að fá að gera einn daginn. Nú er þessi draumur að rætast! Það verður svo spennandi að sjá útkomuna. Helgin var síðan alveg mega sega góð þrátt fyrir eitt ömurlegasta veður í heimi! Við byrjuðum helgina á Perú fundi á föstudagskvöldinu sem endaði síðan með Singstar partýi til klukkann fimm um morguninn ásamt pottapartýi og velt sér upp úr dögginni, já það gerir maður alltaf á Jónsmessu sem var þó ekki alveg þetta kvöld en maður þarf bara að “leika” sér er það ekki? Hefur þú vlet þér upp úr dögginni? Hvernig leikur þú þér? Gerir þú það á hverjum degi eða þarftu að vera í sérstöku skapi? Ég myndi vilja leika mér miklu meir en það þykir víst ekki voðalega fínt! Á laugardeginum voru þrjár útskriftir og fimmtugsafmæli svo mikið um gleði þann laugardaginn. Svo var svo dásamlegt að eiga rólegan sunnudag í rigningunni sem ég hélt að myndi aldrei ætla að enda!
Jæja, lokavika Júní mánaðar skall á og yndisleg orka í mér með Lónsöræfin í miklum fókusi þar sem það ævintýri byrjar 1. Júlí. Vikan byrjaði með mikilli vinnu sem dvínaði eftir því sem leið á vikuna sem var akkúrat eins og ég vildi hafa það, þó voru alveg þó nokkur samtöl fram á fimmtudag. En þá gat maður farið að einbeita sér ennþá meira af því hvað skal pakka þó við hefðum í raun verið að pakka niður í heila viku. Hvernig undirbýrð þú þig undir langt frí? Hefur þú farið á fjöll í lengri tíma? Finnst þér það áskorun að pakka? Ekkert rafmagn, enginn sími og ekkert netsamband! Gæti ekki verið meira aðlaðandi að mínu mati. Innri tenging alveg í massavís. Þetta er okkar eiginmannsins leið að stoppa og anda, taka inn allt það góða sem við eigum. Eftir svona dvöl kunnum við að meta allt svo miklu betur, maður finnur meira að segja betra bragð af öllum mat, heyrir miklu meir og sérð miklu meir, þetta er ótrúleg meðvitundaræfing.
Hvað gerir þú til að fylla á tankinn þinn? Hvernig veistu þegar hann er að tæmast, lætur þú hann tæmast? Hvað tæmir hann? Breytist það eitthvað á milli mánaða hvað það er sem tæmist eða lætur tankinn tæmast? Getur þú fjarlægt það sem tæmir tankinn eða er það partur af lífinu, ef svo er er hann stór og mikilvægur partur? Spurning um að reyna gera eitthvað í því? Annarss er lífið eitt stórt og langt ferðalag og maður eiginlega sjálfur þarf að ákveða hversu lengi maður ætlar að vera í því og þá meina ég með því að þú þarft að hugsa vel um þig ef ferðin þín á að verða löng. Sumir eru partur af ferðalaginu þínu en suma getur þú valið með þér. Svo er það þitt að ákveða hvert þú ætlar, með hverju, afhverju og hvernig. Og maður má aldrei heldur gleyma því hvaðan maður er að koma þó það sé liðið en þaðu er partur af okkur og hefur mótuð okkur. Þetta er ansi skemmtileg samlíking.
Markþjálfun er ein leið til að líta inn á við og skoða sjálfan sig, hér getur þú bókað kynningartíma ef þú hefur aldrei farið, vertu velkomin.
Comments