Ég veit eiginlega ekki hvernig ég get byrjað að blogga um þennan magnaða mánuð? Mér finnst ég vera svo mikill forréttindapési og eiga dásamlegt líf. Það er svo hollt að halda úti svona mánðarbloggi því þá sér maður það svo skýrt. Að gera upp mánuðinn sem er liðinn er einstaklega gefandi. Gerir þú eitthvað slíkt? Mæli 100% með því.
En hann hófst á skemmtilegum stað þar sem endurfundir kollega í sama fagi og ég áttu sér stað, það er alltaf svo gott að hitta “like minded” manneskjur, það er svo nærandi. Átt þú slíkar persónur í þínu lífi? Reynir þú að hitta þær reglulega eða kemur það í þínu lífsflæði að sjálfum sér? Hvað er það við manneskjur í þínu lífi sem gefa þér næringu en taka ekki næringu frá þér? Getur þú reynt að forðast þá sem taka næringu og orku frá þér? Ég veit að stundum getur það verið flókið sérstaklega ef það er fjölskyldan. En til að rækta sig vel og fallega þá þarf maður að spá í þessum hlutum.
Við eiginmaðurinn brunuðum svo í sveitasæluna og lok vinnudags sem var heldur rólegur hjá mér eins og föstudagar eiga að vera. Þessi fyrsti dagur Júlí mánaðar var svo geggjaður í alla staði, þar sem við áttum geggjaðan kvöldmat hjá Dalahyttum og svo í Dalabúð með Ara Eldjárn þar sem “Heim í Búðardal” var akkúrat þessa helgi. Laugardagurinn var svo einnig alveg geggjaður þar sem við heimsóttum allskonar, hittum allskonar og sáum allskonar. Sá dagur endaði heldur betur á alls ekki svo rólegum stað heldur hvorki meira né minna en á balli með Stjórninni og Herra Hnetusmjöri í Dalabúð, geri aðrir betur. Ég fór þó extra varlega þar sem ég vildi ekki að einhver myndi rekast á öxlina mína, hélt mér upp við vegginn en skemmti mér konunglega og fékk oft “flashback” frá árum áður. Maður hefur átt þau mörg böllinn á þessum stað og þarna “hittumst” við Gulli fyrst.
Vikan sem nálgaðist höfum við svo verið að bíða eftir í raun í heilt ár þar sem skálavarðarhlutverk síðasta sumars fór svo vel að við ákváðum að gera það aftur í sumar. Við náðum þremur vinnudögum sem voru bæði rólegir og annasamir en svo var keyrt af stað á Höfn þar sem við eyddum nótt í Lóninu hjá vinafólki okkar, þau lánuðu okkur yndislegan sumarbústað. Næsta dag þurfti svo að vakna snemma því brottför frá tjaldstæðinu á Höfn var kl.7. Skálaverðir og leiðsögumenn í Lónsöræfum “coming up”. Hvað gerir þú til að hlaða batteríin þín? Þó þetta sé alveg krefjandi starf í raun eða með þá meiningu að maður kannski sefur ekkert sérlega vel í koju og allir heyra í hvor öðrum. En þá er náttúran svo svakaleg allt um kring að þú fyllir svo vel á þá orku í þér. Plús að þú hefur ekki tengingu við neitt nema þig sjálfan í raun, og jú auðvitað þá sem koma og taka fjallgöngur þarna í kring. Ekkert netsamband, enginn símin nema neyðarsími sem virkar í sól og einungis kalt vatn og ekkert rafmagn. Algjör draumur fyrir okkur sem lifu hröðu lífi í höfuðborginni í miklu áreiti. Hvernig tengir þú við þetta? Finnur þú fyrir því að þú þarft að “endurræsa” þig reglulega? Hvað gerir þú og hvernig veist þegar þú þarft að gera það, hvaða skilaboð færðu? Finnur þú inn í þínum líkamlega hvað hann vill eða þarf hverju sinni. Hlustar þú og gerir svo eða öfugt?
Svo áttum við 11 ára brúðkaupsafmæli á öræfum og það var svo fallegt því að sú sem skipuleggur skálavörsluna og allt í kringum skálann hafði komið með freyðivínsflösku og afhent okkur um kvöldið, voða rómó stund hjá okkur Gulla í fallegi veðri. Þetta er lífið krakkar!
Til byggða var síðan komið um miðjan mánuð eða 16. Júlí og eytt einni nóttu á Höfn, borðaður góður matur og virkilega notið. Alltaf er gott að koma heim, heima er best.
Vikan sem kom varð líka ofur stutt þar sem Noregsferð átti sér stað strax á miðvikudegi svo ég átti frekar rólega vinnudaga áður en þó samt aðeins leiðtogaþjálfað erlenda aðila, það er svo gefandi og magnað hlutverk, mér finnst ég svo mikill forréttindapési (segi það aftur og skrifa) að hafa þetta sem starf. Hvernig lítur þú á þitt hlutverk eða starf, spáir þú í því hvort þú ætlir að skilja eitthvað eftir þig, að þetta starf sem þú ert í sé með tilgang? Fyrir mér er það lykilatriði og þarf að vera í samræmi við mín lífsgildi sem eru: Ást, Gleði, Hreinskilni, Heiðarleiki, Traust og Kærleikur. Hver eru þín lífsgildi og afhverju?
Oh my god! Noregsferðin var á einhverju öðru leveli. Engir væntingar og ekkert plan, þvílíkt flæði og vellíðan. Heimsótti bróðir minn og áttum við gæðastundir í góðu veðri. Svo áttu sér stað líka miklar tilfinningasveiflur þar sem ég hitti bestu vinkona mína sem er sænsk og hef ekki hitt núna í 3 ár en venjulegalega hittumst við 1-2 ár ári, hún var að halda tónleika í kirkju aðeins 1,5 tíma frá því sem ég var og ekki hægt að sleppa þeim. Hún söng til mín tvö lög þar sem táraflæði átti sér stað, þvílíkar tilfinningar (Vor í Vaglaskógi og "Hvem vet inte"). Svo kom hún með mér tilbaka til Noregs þar sem við töluðum “nonstop” í 7 klst eða þangað til ég fór með flugrútunni tilbaka um miðja nótt. Við erum sálufélagar og getum tengst á augabragði og tekið upp þráðin þar sem hann var. Það er svo magnað að fylgja hjartanu og gera það sem það vill að maður gerir. Hvernig hlustar þú á þitt hjarta? Og ertu að fylgja því? Hvernig? Hvað ertu að gera það sem hjartað þitt vill að þú gerir? Hvað finnur þú þegar þú gerir þetta?
Loks kemur að nánast fullri vinnuviku í lok þessa ævintýrlega mánaðar. Náði fjórum dögum með allskonar leiðtogaþjálfun og einnig praktísk mál unnin. Ég hreinlega ELSKA að plana og undirbúa sem er stór hluti af mér, þó hef ég fundið upp á síðkastið að ég er orðin miklu rólegri í þeim málum, að ekki þarf alltaf að vera plan heldur "go with the flow".
Þessi mánuður endar svo í Vestmannaeyjum á Þjóðhátíð. Ég get varla líst þessari helgi og var alveg meðvitað ákveðið að þessi pistill kæmi ekki út í dag en ekki fyrsta eins og reglan er hjá mér. Mig langaði að enda á þessum skrifum í sæluvímu frá helginni. Við áttum bæði flugmiða og á þjóðhátíð frá 2020 svo það var ekkert annað í stöðunni en að skella sér í flug á föstudeginum og eyða helginni með góðum vinum búsettum í eyjum. Hápunktur helgarinnar var þó að taka á móti 19 ára gömlum syninum á bryggjunni og leyfa honum að upplifa eitt kvöld með okkur og einnig með sínum vinum. Hann fékk þvílíkar móttökur af fjölskyldu og vinum því má segja að hann hafi fengið að upplifa rjómann.
Ég ætla að ljúka þessu á ljúfum nótum með nokkrum myndböndum frá Júlí mánuði. Hlustið á hjartað og finnið hversu mikla næringu þið fáið með því. Einnig að klára hvern mánuð veitir manni mikið þakklæti.
Takk í bili, nú ætla ég að pakka niður í þriðja sinn á tveimur vikum því ég er að fara í flug í sólina til Nice.
Comments