top of page
Search
  • Writer's pictureÁsta Guðrún Guðbrandsdóttir

Ammmææææli


Þá er þessi skrítni, furðulegi en fallegi mánuður búin! Ég er alveg gjörsamlega búin á því á sál og líkama í dag þann 1. Nóvember, örmagna eiginlega með risa frunsu! En allskonar er að valda því og flest veit ég líklega af hverju er og mér líður svona en svo er auðvitað alltaf eitthvað sem maður veit ekki neitt í sinn haus um. Hvernig er þetta hjá þér? Þegar þú ert þreytt eða örmagna er ekki oftast frekar skýr ástæða eða? Ferðu oft þangað? Afhverju fer maður þangað? Er umbreyting kannski ein skýringin? Það er eitthvað annað að verða hálfrar aldar gömul!

En að uppgjöri mánaðarins. Þetta er Október mánuðurinn minn, ég á afmæli í þessum mánuði og hef elskað það að halda upp á það og fagna sem ég gerði af fullum krafti þetta árið eða en eitt árið. Mánuðurinn byrjaði á Sunnudegi og þann sunnudag áttu afmælisgestir eða “Murder Mystery” gestirnir mínir að staðfesta komu sína í afmælið mitt. Þetta var virkilega góð og róleg helgi sem var svo gott því stór og viðamikil vika var framundan. Það voru 23 samtöl þessa fjóra daga því föstudagurinn fór í Hörpuna með viðveru fyrir hönd ICF á Mannauðsdaginn. Það voru nokkrir fyrirlestrar og allskonar annað spennandi sem átti sér stað og ferlega gott að eiga aðra óplanaða helgi framundan. Ég gat þá einbeitt mér að skipulagi fyrir STÓRA daginn minn. Hversu mikið reynir þú að hafa helgarnar fyrir þig og þitt skipulag? Eða eru alltaf stór og mikil plön? Hversu mikilvægt er það að gefa sér tíma og rými? Þetta kalla ég eiginlega "me time" eða "sjálfsmildi".

Önnur vika október mánaðar var aðeins viðaminni en sú fyrsta þrátt fyrir allskonar fundi og þjálfun 15 manns. Og svo fékk ég aðra óplanaða helgi sem var svo geggjað því þann 28. Október var síðan STÓR afmælisfögnuðurinn sem þarfnaðist mikils undirbúnings svo ég var virkilega glöð að hafa tekið allar helgar í okt fyrir undirbúning þessa mikla afmælisfögnuðs.


EN þegar leið að miðjum mánuðinum fann ég að mér var farið að líða eitthvað undarlega og gat aldrei fest fingur á það beint hvað það var sem olli því. En ég gaf mér tíma til að líta inn á við og skoða það. Hvað gerir þú þegar þér líður ekki nógu vel og finnur fyrir þyngri orku í kringum þig. Mér fannst allt frekar þungt og nokkrir staðir sem ég hef sjálf valið að vera þáttakandi í til að vaxa, voru ekki að næra mig á neinn hátt heldur að íþyngja mér og líðan meir svona að “koðna”niður. Já og þetta hélt í raun alveg áfram og alveg fram að sjálfum afmælisdeginum mínum þann 26. Október en þá var ég búin að ákveða að ég ætlaði að gefa mér glaðan dag í afmælisgjöf. En vinnan hélt þó alltaf áfram ég stoppaði hana ekki enda gefur hún mér það mikið að ef ég hefði stoppað allt saman þá fyrst hefði allt brunnið til kaldra kola hjá mér. En ég á marga góða að sem ljáðu mér eyra og hlustuðu, það er svo gott að getað bara talað og þurfa enga endurgjöf, þekkir þú þetta? Mér leið eins og allt væri að hrynja á köflum og mig langaði í felur. Kannski var aldurinn og hórmónarnir að tala og ekki gott að vita en allavega var þetta skrítið. En þá er gott að eiga sér markmið og getað snúið sér að þeim eins og fjallgöngurnar mínar.

Mér líður betur í dag en er þó samt pínu skrítin, hef fyllst miklu þakklæti síðustu daga en finn fyrir svona “yfirþyrmandi” þreytu, held þetta sé einhvert spennufall líka þarna í þessu? Hvað finnur þú og hvað gerir þú í svona ástandi?


En svona hófst 26. Okt! Með dífu í sjóinn í kolsvarta myrkri!

Dagurinn MINN, dagur sem ég var búin að ákveða að yrði dásamlegur sem hann varð. Ég vaknaði á mínum venjulega tíma 05:40 og hitaði ceremonial kakó. Brunaði á Ægissíðuna þar sem ég fór í Fargufuna sem eru þrjár gufur og svo sjórinn fyrir þá sem vilja inn á milli. Að sjálfsögðu tók ég alltaf sjóinn og endaði líka á sjónum, þvílíkt og annað eins sem sjórinn gefur mér. Það er eitthvað með öndunina sem ég næ að stilla mig af. Svo fór ég upp í Heilsuklasa í fallegan yoga sal sem hún Helga vinkona mín var búin að undirbúa svo fallega fyrir mig og nokkrar “systur” mínar. Þar tók hún okkur í mjúkar teygjur og yoga nidra. Svo enduðum við á því að fá okkur kakó og tala frá hjartanum. Því næst fór ég í smá augnadekur eða lét lita og plokka mig sem mér finnst mikið dekur og geri kannski 3-4 á ári. Þaðan fór ég í Móar í Gong slökun sem var yndislegt, hitti líka fallegar sálir þar sem gáfu mér knús, og þar hófst það. Þessi yfirburða þakklætiskennd sem er ennþá mikið til staðar, þessi knús eru svakaleg. Eftir Móa fór ég heim þar sem frændfólk mitt stóð á tröppunum til að knúsa mig og gefa mér afmælisgjöf. Móðir mín kom einnig með hádegismat (sushi uppáhaldið mitt), geggjaða köku og við áttum kósý stund saman sem fleiri tóku þátt í eins og litlu frænkur mínar ofl. Þaðan fór ég í ilmkjarnaolíunudd sem er eitthvað miklu meira en nudd. Eftir það kom ég heim, skipti um föt fór í sparifötin, systir mín pikkaði mig upp og við fór stutt á Haustfögnuð uppáhaldsbúðar minnar Mix Mix eða okkar allra, mömmu, systur minni og minnar og þaðan fórum við út að borða með minni “litlu” fjölskyldu ásamt foreldrum mínum. Tókum svo eftirréttinn heima þar sem ég átti svo fallega köku sem mamma hafði komið með fyrr um daginn. Svo sátum við eiginmaðurinn langt fram á kvöld að ræða öll heimsmálin, svona kvöld eru svo dýrmæt. Hefur þú gert þinn eigin afmælisdag? Hvernig væri hinn fullkomni afmælisdagur hjá þér? Næring fyrir mig er svo dýrmætt fyrir mig og ætti maður að vera miklu duglegri að gera svona hluti, þarf ekki að vera allt á einum degi eins og þessi heldur bara eitt og eitt, svo nærandi!

Næsta dag tók ég alveg frí frá vinnu líka eins og á afmælisdaginn og notaði í fínpússingu fyrir hinn stóra dag, sjálfa afmælisveisluna sem var ekkert lítil því eins og kannski margir muna þá er leiðarljósið mitt í ár "að leika" þannig að það var ekkert annað sem stóð til boða fyrir mig annað en að LEIKA þettta afmæli. Svo rann upp þessi laugardagur 28. Október sem ég var búin að bíða eftir í svona 6 mánuði allavega. Eða frá því að ég uppgötvaði að mig langaði í afmælisgjöf “Murder Mystery” leik. En þá var bara komið að því og salinn þurfti eða mig langaði að undirbúa hann eins vel og ég gat og fékk mína langbestu föndur vinkonu sem hægt er að eiga, þvílíkur demantur. En hún bjó einnig mikið til fyrir “propps” ásamt því að setja upp í raun vinnustofu Sherlock Holmes, skrifstofu og hálfgert anddyri, alveg svakalega flott. Svo var það veisluborðið því gestirnir voru að mæta í matarboð til Hr. Victor Moorbourne sem ætlaði að afsaka sig fyrir mistök sín og segja frá erfðaskránni sinni. Auðvitað fékk ég móðir mína til að hjálpa mér við það enda mikill borðfagurkeri, einnig kom lítil hjálparkona með sem var dýrmætt. Afmælisestirnir voru búnir að vera fá undirbúningspósta í mánuð fyrir þennan dag. Allt frá því að vera fá nafnið á sínum karakter, búningar, ártalið, lýsingu ofl. Allt var klárt og svo mættu gestirnir alveg “all in” ég get svarið það, þvílíkur metnaður í fólkinu ég var gjörsamlega í skýjunum. Svo metnaðarfullt allt saman. Svo hóf leikarinn Benedikt Gröndal sem stýrði þessu öllu saman bæði fyrir og í afmælinu. Þetta voru minnir mig þrjár senur og í þeirri fyrstu áttu allir að kynnast og svo fengum við fyrirmæli, þannig gekk leikurinn í 3 klst. Já og auðvitað var framið morð sem við áttum öll að leysa. Tíminn leið alltof fljótt og leikkurinn þurfti í raun að enda mjög snögglega því næstu gestir voru mættir alveg í lokinn sem var bara skemmtilegt því þau sáu einskonar leikrit eiga sér stað. Ólgeymanlegt kvöld í alla staði og erfitt að lísa hér meira með orðum. En svo komu plötusnúðar sem þeyttu skífum langt fram á kvöld, vinkona mín frá Kuala Lumpur tók mjög fallegan dans frá sínu heimalandi og allir skemmtu sér konunglega vel. Ég mun reyna setja stemningsmyndir en þær voru SVO margar og erfitt að velja....
Ég held ég gæti skrifað margar blaðsíður um þessa afmælisveislu mína, hvernig er þetta hjá þér? Heldur þú upp á árin þín?


Jú, ekki má gleyma því að ég skrifaði grein í Salina.is fyrir hana Berglindi sem óskaði eftir því, sjá grein hér.


En ég hef fengið óteljandi myndir og myndbönd bæði frá mínum síma og frá öðrum, nú þarf ég að finna leið til að geyma því þessar myndir eru svo geggjaðar.


Að fagna hverju ári er dýrmætt, fögnum lífinu!
25 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page